Sólblóm

Hármissir í kjölfar krabbameinsmeðferða

HárkollurHárkollurHárkollur

Hármissir eða hárþynning er algeng aukaverkun krabbameinsmeðferða og getur komið í kjölfar:

  • Krabbameinslyfjameðferða
  • Geislameðferða
  • Annarra meðferða eins og hormóna– og lífefnameðferða
Krabbameinslyf

eru öflug lyf sem virka meðal annars á krabbameinsfrumur með öra frumuskiptingu. Í hársekkjunum er ör frumuskipting því eru hárfrumur útsettar fyrir frumueyðandi áhrifum krabbameinslyfjanna, hárið hættir að endurnýja sig og það sem fyrir er dettur af.

Krabbameinslyfjameðferð getur orsakað háreyðingu á öllum líkamanum. Stundum fara augnhár, augabrúnir, skegghár, hár undir höndum, nefhár og kynhár.

Mismunandi er eftir tegund krabbameinslyfja hvort þau valda hárlosi, hárþynningu eða algjöru hárleysi. Læknir þinn eða hjúkrunarfræðingur getur sagt þér við hverju þú mátt búast. Það er hinsvegar einstaklingsbundið eins og flest annað hvað síðan gerist, sumir missa aldrei alveg hárið þrátt fyrir að krabbameinslyfin sem viðkomandi fær séu þekkt fyrir það.

Hárið byrjar oftast að losna 1-3 vikum eftir fyrstu meðferð. Það getur losnað hægt og rólega eða í stórum flyksum. Oft byrjar fólk að sjá hárlos á koddanum, hárburstanum eða í sturtunni. Höfuðleðrið getur orðið aumt viðkomu.

Hárið getur byrjað að vaxa aftur meðan á meðferð stendur en hárlosið er yfirleitt viðvarandi gegnum meðferðina og jafnvel nokkrar vikur eftir að meðferð lýkur.

Hárið sem vex eftir meðferð getur verið öðruvísi en það sem þú misstir til dæmis hvað varðar áferð og lit. Breytingin er yfirleitt tímabundin. Engin meðferð hefur hingað til reynst árangursrík að koma í veg fyrir hárlos eða hármissi. Besta leiðin er að undirbúa sig andlega.

Meðalmaður er með um 100.000 hár á höfðinu. Hárin vaxa stöðugt, eldri falla og ný vaxa í staðin

Við krabbameinsgreiningu og meðan á lyfjameðferð stendur er gott að hafa í huga:

Farðu mjúkum höndum um hárið. Ekki er talið gott að nota lit og permanent. Ráðlagt er að nota sem minnst sléttujárn, hárþurrku eða rúllur. Þvo hárið sjaldan og nota mildar hárvörur. Allt sem togar í hárið er talið óæskilegt eins og dagleg fléttun eða flóknar hárgreiðslur. Það getur hinsvegar verið hjálplegt að hafa hárið í fléttu eða hnút og hreyfa sem minnst við því.

Íhugaðu að klippa hárið stutt. Stutt hár virkar þykkra einnig er stutt hár undirbúningur fyrir hárlos eða hártap. Það getur verið hjálplegt að nota hárnet eða húfu á nóttunni einnig er gott að sofa á satin- eða silkiveri.

Íhugaðu að raka hárið af ef það er farið að falla í flyksum. Margir finna fyrir kláða og pirring í höfuðleðrinu meðan hárið er að detta, pirringurinn getur minnkað með því að raka hárið af. Jafnframt er auðveldara að bera krem á höfuðið til að minnka kláða og pirring í húðinni. Það getur líka verið hjálplegt fyrir andlega líðan þegar búið að raka hárið þar sem það er hvort sem er að fara.

Verndaðu höfuðleðrið geng kulda og hita.

Farðu varlega með augnhár og augabrúnir. Ef nefhár fara getur það aukið nefrennsli sem lagast ekki fyrr en nefhárin vaxa aftur.

Eftir meðferð:

Haltu áfram með mjúku aðferðina. Nýja hárið er viðkvæmt og brotnar auðveldlega því er ekki talið gott að nota lit, permanent og sterkar hársnyrtivörur fyrst í stað meðan hárið er að styrkjast.

Þolinmæði virkar í þessu sem og öðru. Hárvöxturinn byrjar hægt og það tekur tíma fyrir hárið að koma til baka og verða aftur eins og það var áður. Talað er um 10 mánuði þar til hægt er að búast við að hárið sé orðið svipað og áður.

Aðrar krabbameinsmeðferðir

Geislameðferð:

Geislameðferð getur haft truflandi áhrif á frumur líkamans en ólíkt lyfjameðferðinni þá hefur geislameðferðin staðbundin áhrif á þann stað sem verið er að geisla. Til dæmis ef verið er að geisla á höfuðið er líklegt að hárið fari að hluta til af höfðinu eða ef verið er að geisla á annað brjóstið að hárin fari undir þeim handarkrika.

Það fer eftir styrk geislunar hvort hárið vex aftur eins og áður. Geislalæknirinn veit við hverju má búast.

Geislun getur ert húðina, gert hana rauða og viðkvæma. Ef verið er að geisla á höfuðið getur verið hjálplegt að nota mjúka húfu eða klút til að hlífa húðinni gegn hita eða kulda. Hárkollur geta pirrað og ert húðina á meðan á geislun stendur.

Aðrar meðferðir:

Aðrar meðferðir eins og hormóna- og lífefnameðferðir geta gert hárið þynnra, þurrara og viðkvæmara.

Mikilvægt er að meðhöndla hárið mjúklega og fá ráðgjöf hjá fagfólki varðandi hárgreiðslu, hárvörur og umhirðu. Bæði fyrir og eftir hárlos eða hármissi.

Hár er höfuðprýði og því ekkert léttvægt að missa hárið. Bæði menn og konur segja hármissi vera þá aukaverkun sem þau kvíða einna mest eftir krabbameinsgreiningu.

Hárkolla, höfuðföt og örlitameðferð á augnsvæði telst til hjálpartækja.

Sjá upplýsingar á vef Sjúkratrygginga Íslands www.sjukra.is

Sjúkratryggingar Íslands SÍ taka þátt í kostnaði við kaup á hjálpartækjum vegna hársmissis í kjölfar krabbameinsmeðferða.

Krabbameinslæknar fylla út grunnvottorð eða hjálpartækjabeiðni sem gildir fyrir hárkollu, örlitameðferð / tattoo á augnsvæði og höfuðföt með tilliti til þeirra meðferða sem þú ert að fara í. Betra er að fá beiðni fyrr en seinna.

Til að fá endurgreiðslu frá SÍ þarf að framvísa löglegum reikningum. Mikilvægt er að reikningur sé vel útfylltur, tiltekið sé hvað var keypt og í hvaða tilgangi eða hverskonar meðferð var farið í.

Hárkollusérfræðingar segja að það sé gott að sjá viðkomandi með eigið hár áður en það fer alveg þar sem það auðveldi val á hárkollu bæði hvað varðar lit og áferð.

Að skoða hárkollur, klúta, hatta og húfur, máta og æfa sig er mikilvægt. Skemmtilegur félagsskapur getur breytt erfiðum degi í glaðan og góðan dag.

Leitaðu til fagfólks varðandi hárgreiðslu, hárvörur og umhirðu. Bæði fyrir og eftir hárlos eða hármissi.

Sérfræðingar í örlitameðferð á augabrúnir og augnalínusvæði ráðleggja eindregið að koma við á stofu áður en augabrúnirnar fara af, það gefur tækifæri til að taka mynd og jafnvel merkja fyrir með ákveðinni tækni. Ef augnhár hverfa er hægt að fá örlitameðferð á augnalínusvæði sem skerpir útlit augna.

Listgrein sem kölluð er „hairstroke‟ tækni er tilvalin fyrir augabrúnagerð. Þessi tækni við gerð augabrúna er til þess fallin að ná fram sem eðlilegasta og náttúrulegasta útliti. Tæknin, aðferðin og endanleg útkoma er talin hinn „gullni staðall ‟ fyrir fallegar og varanlegar augabrúnir.

Mikilvægt er að afla upplýsinga og skoða mismunandi gerðir augabrúna þannig að þú vitir hvað þú vilt hvað varðar lögun og lit.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica