Sólblóm

Hvað er krabbamein og hvernig getum við sigrast á krabbameini?

Samantekt: Halla Skúladóttir, krabbameinslæknir

Líkaminn hefur ótrúlega fjölbreyttar leiðir til þess að sporna gegn myndun krabbameina, þar á meðal er hver fruma með fjölda viðgerðarferla sem leitast við að leiðrétta frumuskaða jafn óðum og þeir myndast. Ef frumur ná ekki að leiðrétta skaðann kallar það á frumusjálfsvíg gallaðra fruma og einnig á viðbrögð ónæmiskerfisins sem hefur möguleika á að útrýma gölluðum vef.

Krabbameinsfrumur eiga það flestar sammerkt að þær hafa öðlast hæfni til þess að skipta sér án þess að taka tillit til umhverfis síns og þær vaxa jafnvel inn í aðlæga vefi. Þær sýna ýmis þroskafrávik og geta einnig stuðlað að nýmyndun æða sem næra æxlið og stuðla að áframhaldandi vexti þess. Einnig eru krabbameinsæxli þekkt fyrir að mynda meinvörp en það eru ný mein á fjarlægum stað frá upphafsmeininu. 

Krabbameinsfrumur myndast vegna breytinga á erfðaefni (DNA eða kjarnsýrur) frumunnar. Um stökkbreytingar er að ræða í eðlilegum frumum í eðlilegum vef. Stökkbreytingarnar gerast í þrepum sem geta orsakast af ýmsum áreytum eins og krabbameinsvaldandi efnum, krónískra sýkinga, geislunar, öldrunar og fleira. Þessar stökkbreytingar valda því að frumurnar öðlast nýja eiginleika.

Eiginleikar krabbameinsfruma er:

 • Vöxtur sem hlýtur ekki stjórn
 • Þroskafrávik
 • Ífarandi vöxtur
 1. Virða ekki innri landamæri líffæra sem eðlilegar frumur gera.
 2. Vaxa inn í aðlæg líffæri og valda skaða.
 • Nýmyndun æða
 1. Krabbamein þurfa súrefni og næringu.
 2. Sum krabbamein geta notast við frumuhimnuflæði ef þau eru agnarsmá.
 3. Flest krabbamein þurfa svokallaða æðavæðingu þ.e þau stuðla að nýmyndun æða sem eru óþéttari og ófullkomnari en venjulegar æðar.
 • Meinvörp
 1. Krabbamein geta dreift sér um líkamann og myndað meinvörp. Meinvörp hafa sömu vefjagerð og móðuræxlið.
 2. Krabbamein dreifa sér eftir sogæðum, blóðæðum eða eftir lífhimnum (brjósthol, kviðarhol).

Vöxtur krabbameina

Vegna stökkbreytinga sjá krabbamein oft á tíðum sjálf um myndun vaxtarþátta eða auka næmi sitt fyrir vaxtarþáttum sem eru til staðar í líkamanum. Krabbameinin mynda ónæmi fyrir þáttum sem annars stöðva frumuvöxt og koma sér undan frumudauða sem er hluti af eðlilegum viðgerðareiginleikum líkamans.

Krabbamein vaxa mismunandi hratt

Dæmi um hratt vaxandi krabbamein er hvítblæði og eitlakrabbamein

Dæmi um hægt vaxandi krabbamein er nýrnakrabbamein

Dæmi um miðlungi hratt vaxandi krabbamein er brjóstakrabbamein, blöðruhálskirtilskrabbamein og flest lungnakrabbamein

Orsakir krabbameina er óþekkt í 65% tilfella hjá körlum og 76% tilfella hjá konum

Þekktar orsakir eru hinsvegar taldar upp hér að neðan. Prósentan sem er gefin upp segir til um hve stórt hlutfall allra krabbameina orsakast af umræddum þætti. Þetta hlutfall getur  verið mun hærra innan einstakra krabbameina eins og t.d. tóbaksreykingar eru orsök  að minnsta kosti 85% allra lungnakrabbameina en eru td ekki talin valda ristilkrabbameini og sýking með HPV veirunni er orsök um það bil 70% allra leghálskrabbameina en eru ekki talin valda öðrum krabbameinum ef frá eru talin krabbamein á höfuð- og  hálssvæði.

Þekkt orsök
karlar
konur
 Tóbaksreykingar  19%  9%
 Óbeinar reykingar  1%  1%
 Áfengi  2%  1%
 Starfsumhverfi  3%  1%
 UV geislun  4%  5%
 Önnur geislun  2%  2%
 Offita  4%  %
 Sýkingar  2%  3%

Tíðni krabbameina á Íslandi fer vaxandi vegna:

 • Eiginlegrar fjölgunar krabbameina
 • Íslendingum fer fjölgandi
 • Þjóðin eldist en tíðni krabbameina eykst með aldri, einkum eftir sextugt

Framfarir og lifun

Lifun hefur batnað til muna á undanförnum áratugum. Fimm ára lífshorfur krabbameinssjúklinga hafa meira en tvöfaldast frá því að skráning krabbameina hófst á Íslandi árið 1954. Núna lifa 65% allra kvenna 60% allra karla sem greinast með krabbamein í 5 ár frá greiningu.

Á þessu tímabili hafa orðið miklar framfarir í greiningu, meðal annars hefur verið komið á fót kembileitum sem leita skipulega að krabbameinum meðal heilbrigðra einstaklinga. Mikil vitundarvakning hefur einnig átt sér stað meðal almennings sem þekkir orðið betur þau einkenni sem þarf að leita sér lækninga við. Myndgreiningum hefur einnig fleygt fram sem gerir það að verkum að auðveldar er að velja rétta meðferð fyrir sérhvern nýgreindan einstakling.

Það hafa einnig orðið geysilegar framfarir í meðferðum krabbameina frá því að skráning krabbameina hófst hjá Krabbameinsfélaginu 1954.  þetta gildir um allar gerðir meðferða, skurðmeðferðir, geislameðferðir og lyfjameðferðir. Með tímanum hefur tækninni farið fram og hægt er að beita nákvæmari geislun en áður var hægt og þannig fær æxlið hærri skammt af geislum á meðan hægt er að vernda eðlilegan vef betur fyrir skaðlegum áhrifum geislameðferðar. Fram hafa komið mörg ný krabbameinslyf sem gagnast í fjölmörgum krabbameinssjúkdómum og einnig hafa orðið framfarir í stuðningslyfjameðferðum sem gera það að verkum að sjúklingum líður mun betur á meðan á meðferðinni stendur.

Krabbameinslyf

Hefðbundin krabbameinslyf vinna flest þannig að þau hamla frumuskiptingu. Það er frekar ómarkviss aðferð þar sem líkaminn er samsafn af frumum sem þurfa flest allar að undirgangast frumuskiptingu með reglulegum hætti til endurnýjunar á vefjum.  Því verða eðlilegu frumurnar oft fyrir barðinu á þessum lyfjum á meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur, þeirra frumuskiptingu er einnig hamlað og það er meginorsök aukaverkana krabbameinslyfja.

Nýrri krabbameinslyf, oft kölluð líftæknilyf,  byggja á nýjustu þekkingu vinna markvissar gegn brengluðum frumuferlum, eins og til dæmis að hamla því að vaxtarþættir örvi frumur til skiptingar eða sporna við nýmyndun æða sem geta nært krabbameinsvefinn. Eðlilegar frumur verða fyrir miklu minni áhrifum af þessum lyfjum þar sem þeirra frumuferlar eru ekki brenglaðir. Fjöldi nýrra lofandi lyfja eru í prófunum sem hafa áhrif á aðra frumuferla en notaðir eru í dag sem hlífa betur eðlilegum vef en hefðbundin krabbameinslyf.

Framtíðin

Ný þekking innan líffræði krabbameina hefur leitt í ljós ýmsa gagnlega lífvísa. Lífvísar eru efni eða einkenni í æxlisvef af ýmsum toga eins og t.d. prótein, gen, vefjagerð og fleira. Sumir  lífvísar eru í notkun þegar í dag og geta sagt fyrir um svörun við ákveðinni gerð af lyfjameðferð. Í framtíðinni gætu lífvísar jafnvel hjálpað okkur að segja fyrir um  áhættuna á að fá krabbamein eða líkur á áhættu á endurkomu krabbameins og þannig sagt fyrir um hverjir þurfa viðbótarlyfjameðferð og hverjir þurfa ekki á slíkri meðferð að halda.

Skilningi okkar á líffræði krabbameina hefur fleygt fram, en hefur enn sem komið er ekki skilað sér nægilega hratt til meðferðar.  Hafa verður í huga að krabbamein er ekki einn sjúkdómur heldur eru þau af ýmsum gerðum, líklega nálægt 200 mismunandi sjúkdómar og það þarf að nota mismunandi lyf við mismunandi krabbameinssjúkdómum. Í framtíðinni er stefnt enn frekar að einstaklingsmiðaðri meðferð því enginn einstaklingur er eins og ekkert æxli er eins.

Ný þekking hefur leitt enn fleiri og áður óþekkta þætti í ljós sem vekja vonir um nýjar leiðir í meðferðum krabbameina. Þetta eru jafnvel þættir sem er að finna utan æxlisfrumanna. Þegar er farið að beita lyfjum sem örva ónæmiskerfið til þess að vinna á krabbameinum og mikil vinna er í gangi til þess að virkja eðlilegan stoðvef innan æxlisins til þess að hamla vexti æxlisfruma. Nýjustu rannsóknir skoða einnig samspil líkamans og þeirra baktería sem búa innra með okkur í meltingarveginum og sinna meðal annars niðurbroti næringarefna og að halda óæskilegum bakteríum í skefjum. Vísindamenn vinna ötullega að því að finna leiðir til þess að hamla æxlisvexti í gegnum þær.

Hvernig sigrum við krabbamein

Þekkja áhættuþætti og forðast þá

 • Reykingar, áfengi, vinnuumhverfi, erfðasjúkdómar

Greina krabbamein snemma

 • Efla kembileitir, auka þátttöku

Lækna krabbamein ef þau greinast

 • Nákvæm stigun til að velja viðeigandi meðferð
 • Skurðaðgerð/geislar/lyf og endurhæfing

Ef lækning er ekki möguleiki fá valmöguleika um meðferð

 • Lengja líf og bæta lífsgæði

 Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica