Sólblóm

Nánd, missir og óvissa

Krabbamein og meðferðir breyta líðan fólks og öryggistilfinningu

Fólk þekkir sig ekki fyrir sömu persónuna, það upplifir vanmátt og að hafa misst sjálfstæði. Fólk upplifir sig háð heilbrigðisstarfsfólki og fjölskyldu og jafnvel sér fram á að það ástand muni vara út lífið.

Fólk syrgir það sem einu sinni var. Það syrgir útlit sitt, sem oft breytist óhjákvæmilega, hármissi, missi á líkamsparti eins og brjósti, upplifir breytingar á húð eins og ör, þyngdartap eða þyngdaraukningu. Sektarkennd er oft áberandi, sektarkennd yfir að hafa ekki hugsað nógu vel um sig, ekki hreyft sig nóg, borðað rétt fæði, sektarkennd yfir reykingum og fleira. Erfiðar hugsanir og tilfinningar leita á fólk eins og reiði, kvíði og eða hræðsla við dauðann, ótti við sársauka, ótti við einangrun, kvíði fyrir meðferðinni og aukaverkunum. Fólk upplifir að hafa misst eitthvað dýrmætt.

Fólk syrgir sjálft sig sem heilbrigða persónu og syrgir öryggið sem það einu sinni hafði.

Að syrgja það sem var

Ef litið er á krabbamein sem höft á hamingju og gleði er upplifunin vonleysi og bjargarleysi. Fólk á í erfiðleikum með að vera jákvætt og sérstaklega ef ekki er vitað um batahorfur. Missirinn getur verið varanlegur en líka tímabundinn. Sorgin þarf ekki að vera eingöngu neikvæð upplifun, hún er oft nauðsynlegt ferli til að aðlagast breytingum. Sorg er ekki hægt að koma í veg fyrir og þarf viðurkenningu til að fara í sitt ferli. Að lifa með langvinnan, alvarlegan sjúkdóm getur innifalið margar tilfinningar.

Heilbrigði makinn syrgir líka á sinn hátt og upplifir miklar áhyggjur. Parið syrgir samband sitt sem áður var. Þessi óreiða er óboðinn gestur sem ryðst inn í líf parsins.

Krabbamein ógnar tilfinninga- og líkamlegri nánd para. Ógn eins og veikindi getur haft þau áhrif að par dregur sig frá hvort öðru og fjarlægist út af hræðslu að missa hvort annað.

Breytt parasamband

Langvarandi sjúkdómur eins og útbreitt krabbamein getur haft varanlegar breytingar í för með sér fyrir parið. Hlutverkin í parasambandinu breytast og ógnar tengslunum. Það er alltaf ákveðin hætta að sjúkdómurinn stjórni sambandinu og stýri samskiptum parsins.

Krabbamein sem er í hvíld þarf ekki að ógna sambandinu daglega en óvissan hvernig sjúkdómurinn muni þróast heldur áfram að hafa áhrif á parasambandið og ógna því með óvissunni um missi.

Ef einstaklingur nær að komast yfir krabbameinið þá þarf það ekki að þýða það að lífið fari aftur í fyrra far. Makinn vill sem fyrst leggja þessa lífsreynslu til hliðar en það getur verið sjúklingi verulega erfitt og það getur valdið mikilli togstreitu þeirra á milli. Oft er um varanlegar breytingar að ræða eins og ófrjósemi, breytta líkamsímynd, útlit og skerta líkamlega virkni.


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica