Sólblóm

Nánd og kynlíf

Kynlöngun og kynnánd skerðist oftar en ekki hjá þeim sem sem búa við langvarandi sjúkdóm

Skerðing á kynlöngun og kynnánd er algeng hjá pari sem búa við langvarandi sjúkdóm og hefur áhrif bæði á sjúklinginn og heilbrigða makann. Truflun á kynlöngun hefur áhrif á fullnægingu, örvun, kynlífsánægju og kynlífsvirkni.

Skerðing á kynlöngun getur haft margvíslegar ástæður eins og þreyta, breytingar á líkamsímynd, áhyggjur af að standa ekki undir hlutverki sínu sem maki, breytingar á hlutverkum, ótti, umönnunarábyrgð, kynlífstruflanir, vægðarleysi sjúkdóms og sjúkdómsmeðferðir.

Orsök og afleiðingar

Síþreyta er eitt algengasta vandamálið tengt krabbameini. Þreyta hefur áhrif bæði á sjúklinginn og makann sem getur verið uppgefinn á að sinna þörfum sjúklings og að taka við hlutverkum hans. Áhyggjur, óvissa og álag hefur áhrif á báða einstaklingana. Par sem hefur gengið í gegnum missinn sem heilsubrestur veldur og tekist á við erfiðustu tilfinningarnar á frekar eftir orku í líkamlega nánd.

Breytt líkamsímynd eins og brjóstamissir, hefur oft mikil áhrif á kynlöngun. Því yngri sem konur eru því erfiðara eiga þær með að takast á við brjóstamissi og meiri áhrif á sjálfsmynd þeirra og kynlöngun. Tilfinningarlegu viðbrögðin gagnvart líkama þeirra hefur áhrif á kynlöngun yngri kvenna. Líkamsbreytingar hafa líka áhrif á karlmenn og þeirra ímynd. Þeir upplifa missi á líkamlegu atgerfi og stjórnun.

Hlutverk kynjanna og breytingar á því hefur áhrif á bæði kynin. Yfirleitt reynist það eldra fólki auðveldara að takast á við umönnun maka síns. En aftur á móti vilja eldri umönnunaraðilar frekar einangrast í hlutverki sínu en yngra fólk. Yngra fólk leitar frekar eftir aðstoð hjá ættingjum eða fagfólki og er því ekki eins þreytt.

Kynlífstruflanir innihalda ristruflanir, þurrk í leggöngum og vandamál tengt fullnægingu. Sambandið milli kynlöngunar og kynlífstruflana er ekki klárt. Stundum er kynlöngunin til staðar en líkaminn svarar ekki þeirri löngun. Heilbrigði makinn reynir oft að aðlagast veikindum maka síns og getuleysi hans með því að ómeðvitað minnka kynhvöt sína. Það virðist vera að konur eigi auðveldara með það en karlar.

Ótti og áhyggjur geta minnkað kynlöngun hjá báðum kynjum. Þegar lífsógnandi sjúkdómur ógnar parinu er oft erfitt að upplifa löngun til kynlífs þegar barist er fyrir lífi sínu. Það er líka algengt að óttast að standa sig ekki gagnvart maka sínum hvað kynlíf varðar. Ótti og hræðsla þegar samfarir eru sársaukafullar eða valda öðrum óþægindum. Ótti og áhyggjur að vera aðskilinn við maka sinn á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur.


Einlægni og samtal

Það er afar misjafnt hvernig pör upplifa nánd í sínu parasambandi. Þegar nándin felst aðallega í samförum geta veikindi haft alvarlegar afleiðingar á sambandið.

Alvarleg veikindi geta gert kynlífsathafnir illmögulegar og opnar umræður um þessa erfiðleika eru pari oft erfiðar. Parið hefur gjarnan þörf fyrir að vernda hvort annað fyrir þeim missi sem samband þeirra hefur orðið fyrir og hlífa hvort öðru varðandi langanir og þrár sem erfitt er að uppfylla.

Hinsvegar ef par nær að ræða á opinn og einlægan hátt um vonir, væntingar og vonbrigði þá getur opnast nýr vettvangur nándar sem getur verið parinu bæði dýrmætt og hjálplegt á erfiðum stundum.


 


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica