Sólblóm

Þegar lækning er ekki möguleg

Grein eftir Agnesi Smáradóttur, krabbameinslækni á Landspítala

Þetta eru allt spurningar sem vakna þegar krabbamein hefur dreift sér til annarra líffæra

  • Hvað meinar læknirinn að krabbameinið hafi dreift sér ?
  • Hvað þýðir að ekki sé hægt að lækna krabbameinið á þessu stigi ?
  • Hver er þá tilgangur lyfjameðferðar ef ekki er hægt að lækna sjúkdóminn ?

Stig krabbameins

Flest öll krabbamein er skipt í fjögur stig. Á stigi eitt til þrjú er krabbameinið annaðhvort lítið eða hefur borist í eitla nálægt upprunalega æxlinu. Flest krabbamein eru læknanleg á stigi I-III.

Á stigi IV hefur meinið dreift sér til annarra líffæra og gildir einu hvort um eitt stakt meinvarp er að ræða sem hægt væri að fjarlægja eða hvort sjúkdómur er útbreiddur víða um líkamann. Það er því mikill munur á því sem nefnt er „sjúkdómsbyrði“ innan stigs IV.

Dreifing krabbameins og meðferðarmöguelikar

Krabbamein getur dreift sér með þrennum hætti. Það getur vaxið inn í aðliggjandi líffæri, eins og til dæmis í vöðva eða ferðast með blóð- og sogæðum og tekið sér bólfestu í öðrum líffærum. Þar getur það vaxið og myndað æxli t.d. í  beinum, lifur, lungum eða heila.

Oft eru tekin sýni úr æxli til dæmis í  lifur eða lungum til að staðfesta að hér sé um útsæði eða meinvarp að ræða frá öðrum upprunastöðum. Er þá talað um að æxlið í lifrinni sé meinvarp frá til dæmis brjóstakrabbameini, en ekki upprunalegt lifrarkrabbamein sem er allt annar sjúkdómur og meðhöndlaður á annan hátt.

Þegar krabbamein hefur dreift sér er í flestum tilvikum ekki hægt að lækna sjúkdóminn endanlega. Það er vegna þess að þá er ljóst að krabbameinsfrumur hafa náð að sá sér í annað/önnur líffæri. Krabbameinið telst þá ólæknanlegt.

Hjá einstaklingum sem er annars við góða heilsu, er möguleiki að beita krabbameinslyfjum og/eða geislameðferð til að halda sjúkdómnum í skefjum og minnka einkenni og í einstaka tilfellum er skurðaðgerð beitt. Þá er reynt að velja meðferð sem hentar best hverjum einstaklingi og hefur eins lítil áhrif á hans daglega líf eins og mögulegt er.  

Hægt er að lifa með krabbamein af stigi IV  jafnvel árum saman, allt eftir því hversu útbreiddur sjúkdómurinn er, af hvaða tegund og hversu vel hann lætur undan meðferð.

Brjóstakrabbamein

Brjóstakrabbamein er eitt þeirra krabbameina sem svara vel lyfjameðferð. Það þýðir að mörg krabbameinslyf virka á þennan sjúkdóm, bæði lyf sem gefin eru í æð og töflur. Þegar einstaklingur er kominn með útbreitt brjóstakrabbamein er reynt að velja lyf með sem minnstum aukaverkunum. Þar verða oft fyrir valinu svonefnd andhormónalyf, ef krabbameinið er næmt fyrir hormónum. Það eru töflur sem teknar eru daglega og hafa oft mun minni aukaverkanir en önnur krabbameinslyf sem gefin eru í æð. Öll hafa þessi lyf þó einhverjar aukaverkanir sem þó eru mjög einstaklingsbundnar.

Önnur meðferðarúrræði

Einstaklingar leita gjarnan eftir öðrum meðferðarúrræðum þegar um ólæknandi sjúkdóm er að ræða. Mikið framboð er á ýmsum jurtalyfjum og fæðubótaefnum. Þau eru misjöfn af gæðum og geta verið hættuleg fólki sem tekur mörg önnur lyf samhliða. Mikilvægt er að einstaklingar láti krabbameinslækninn sinn vita hvað hann er að taka inn aukalega þannig að læknirinn geti leitað upplýsinga um milliverkanir jurta- og krabbameinslyfja.

Einstaklingar með útbreitt krabbamein velja einnig oft að kollvarpa mataræði sínu og er það vel ef mataræði hefur verið slæmt og næringarsnautt áður. Hinsvegar er afar mikilvægt að gæta meðalhófs.

Aðrir þættir sem einstaklingar þurfa að huga að er regluleg hreyfing og andlegur stuðningur því mikilvægt er að einstaklingur geti lifað sem eðlilegustu lífi þrátt fyrir að vera með ólæknandi sjúkdóm.

Einstaklingar eru mismunandi og það er ekki alltaf það sama sem hentar öllum, á meðan einn finnur sig í hópi annarra sjúklinga með svipuð vandamál þá finnst öðrum það ekki henta sér. Hér á Reykjavíkursvæðinu eru ýmis úrræði og staðir sem hægt er að benda á til stuðnings. Þá eru öflug krabbameinsfélög víða um landsbyggðina sem einnig geta leiðbeint fólki og aðstandendum þeirra.

 

 


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica