Sólblóm

Hvað er líknar- og lífslokameðferð?

WHO skilgreinir líknarmeðferð (e. palliative care) á eftirfarandi hátt:

Líknarmeðferð miðar að því að bæta lífsgæði sjúklinga sem eru með lífshættulega sjúkdóma og fjölskyldna þeirra. Meðferðin felst í að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu. Líknarmeðferð getur átt við snemma á veikindaferlinu samhliða annarri meðferð sem notuð er til að lina einkenni en jafnframt lengja líf.

Líknarmeðferð:

 • Linar verki og önnur erfið einkenni.
 • Varðveitir lífið en lítur á dauðann sem eðlileg þáttaskil.
 • Áætlar ekki tímalengd lífs og hefur hvorki í hyggju að lengja né stytta líf.
 • Samþættir líkamlega, andlega og sálræna umönnun.
 • Styður sjúkling til að lifa eins innihaldsríku lífi og hægt er til lífsloka.
 • Styður fjölskyldu sjúklings, hjálpar henni að komast af á sjúkdóms tímabili og í sorgarúrvinnslu eftir andlát.
 • Notar þverfaglega teymisvinnu til að takast á við þarfir sjúklings og fjölskyldu hans.
 • Bætir lífsgæði sem getur haft jákvæð áhrif á gang sjúkdóms.
 • Er viðeigandi snemma á sjúkdómsferlinu, samhliða annarri meðferð sem ætlað er að lengja líf. Meðferð getur falið í sér lyfja- og geislameðferð ásamt þeim rannsóknum sem þarf til að gera einkennameðferð sem áhrifaríkasta.

Langvinnir sjúkdómar í vestrænum heimi eru: Krabbamein, langvinnir hjarta- og öndunarfærasjúkdómar, alnæmi, taugasjúkdómar og lamanir vegna blóðtappa og slysa. Einnig má nefna langvinna gigtarsjúkdóma, nýrnabilanir og sykursýki, öldrun, heilabilun og ýmsa geðsjúkdóma. Oftar en ekki eru ofangreindir sjúklingahópar með fleiri en eitt einkenni bæði líkamleg- og andleg sem sérhæfð líknarteymi geta veitt heildræna meðferð við, ásamt því að vera ráðgefandi fyrir almenna heilbrigðisstarfsmenn.

Langvinnir sjúkdómar hafa oftar en ekki áralanga, hæga og stigvaxandi framvindu og eru leiðandi orsök dauðsfalla í heiminum í dag eða í 60% tilfella.

WHO gaf út sína fyrstu skilgreiningu á líknarmeðferð árið 1986 og endurbætti hana árið 2002. Nýja skilgreiningin endurspeglar þá þróun sem orðið hefur á hlutverki líknarmeðferðar í nútíma samfélagi. Skilgreiningin leggur áherslu á að líknarmeðferð eigi að veita í gegnum allan sjúkdómsferil einstaklings með lífshættulegan sjúkdóm og ekki eigi eingöngu að beina athyglinni að meðhöndlun þjáninga heldur að fyrirbyggja þjáningar. WHO hefur verið talsmaður samþættingar líknarmeðferðar í heilbrigðisáætlunum allra þjóða.

Líknarteymi Landspítala skilgreinir lífslokameðferð (e. end og life care) á eftirfarandi hátt:

Lífslokameðferð er lokastig líknarmeðferðar og tekur við þegar sjúklingur er deyjandi. Lífslokameðferð er að mörgu leyti frábrugðin líknarmeðferð hvað varðar ástand, einkenni og meðferðarúrræði sjúklings. Áhersla meðferðar beinist eingöngu að því að draga úr einkennum og þjáningu og tryggja að sjúklingur geti dáið með reisn. Lífslokameðferð felur ekki í sér endurlífgun, gjörgæsluvistun eða önnur íþyngjandi inngrip.

Lífslokameðferð:

 • Linar einkenni og þjáningu bæði líkamlega og andlega.
 • Lítur á dauðann sem eðlileg þáttaskil.
 • Miðar að því að sjúklingur geti dáið með reisn.
 • Felur ekki í sér íþyngjandi inngrip.
 • Styður fjölskyldu sjúklings, leiðbeinir og hjálpar henni að komast í sorgarúrvinnslu eftir andlát.
 • Notar þverfaglega teymisvinnu til að takast á við þarfir sjúklings og fjölskyldu hans.


Nánar um líknar- og lífslokameðferð

Óhætt er að fullyrða að orðið líkn hefur verið þrándur í götu á Íslandi sem sætir furðu þar sem orðið er gamalt og rótgróið í íslensku máli og var meðal annars notað í upphafi tuttugustu aldar um hjúkrunarþjónustuna Líkn sem síðar varð undirstaða heilsugæslu á Íslandi. Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs þýðir orðið líkn að hjálpa, hjúkra og lina þjáningar. Orðið líkn er nátengt orðinu palliative en palliatus þýðir á latínu hjúpur, gríma eða hlíf sem á vel við líknandi einkennameðferð sem notuð er til að hjúpa þjáninguna. 

Á Íslandi hefur orðið „líknarmeðferð“ verið notað á sama hátt og tíðkast hjá WHO og almennt í hinum enskumælandi heimi um end of life care sem í raun þýðir „lífslokameðferð“. Hugtakið líknarmeðferð sem er meðferð notuð samhliða læknandi meðferð hefur þar af leiðandi verið takmörkuð við skilgreiningu á meðferð þeirra sem eru deyjandi og á síðustu dögum lífs.

Líknarteymi Landspítala hefur frá árinu 2007 unnið að endurskilgreiningu á leiðbeiningum um takmörkun á meðferð og á þeim hugtökum sem eru notuð um líknarmeðferð,en mikil þörf er á að allir heilbrigðistarfsmenn noti samræmt orðalag til að auka öryggi og skilning. Til hliðsjónar notar líknarteymið leiðbeiningar WHO frá árinu 1997 ásamt íslenskum heilbrigðislögum frá árinu 1997 sem fjalla meðal annars um linun þjáninga og meðferð dauðvona sjúklings.

Lagt hefur verið til að líknarmeðferð verði skilgreind sem heildræn meðferð fyrir einstaklinga með langvinna erfiða og lífsógnandi sjúkdóma (e. palliative care). Ný skilgreining verður nefnd lífslokameðferð (e. end of life care) og notuð fyrir síðustu daga eða vikur lífs.


Helstu heimildir:

Jón Eyjólfur Jónsson munnleg heimild, 11. október 2008.

Landspítali (2009). Líknarmeðferð–leiðbeiningar um ákvörðun meðferðar og meðferðarúrræði hjá sjúklingum með lífshættulega og/eða versnandi langvinna sjúkdóma. Klínískar leiðbeiningar. 1. útgáfa desember 2009.

WHO. (2002b). Palliative care.

WHO. (2009a). Definition of palliative care.


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica