Sólblóm

Saga líknarmeðferðar

Umönnun veikra og deyjandi hefur ætíð verið mikilvægur þáttur mannkynssögunnar. Umönnun veikra fór í upphafi fram á heimili viðkomandi, fjölskyldan var þar í lykilhlutverki að annast hinn sjúka. Jafnframt voru til svokölluðu hospice. Á latínu þýðir hospes gestur sem er sami málfarsgrunnur og hospital, hostel, hotel, hospitality og hospice. Enginn greinarmunur var gerður á hospital og hospice fyrr á öldum. Slíkir staðir fundust víða um heim og voru gjarnan reknir af trúarreglum. Þeir voru ætlaðir til hvíldar og umhyggju ef fjölskyldan gat ekki annast þann veika og hann væri einstæðingur eða ferðamaður. Árið 1842 í Lyon í Frakklandi var orðið hospice notað í fyrsta skipti til að skilgreina stað fyrir langveika og deyjandi. Fleiri hospice opnuðu í kjölfarið í París og New York. Merking orðsins hospice hefur breyst í tímans rás og er í dag meira notaða um meðferð en stað.

Um nítján hundruð opnaði St. Josephs Hospice í London deild fyrir fátæka og deyjandi. Á St. Josephs hófust fyrstu rannsóknir og umbætur varðandi verkja-lyfjagjöf langveikra. Cicely Saunders sem var helsti frumkvöðull nútíma líknar-meðferðar vann þar árin 1957-1967 að læknisrannsóknum sínum á verkjameðferð krabbameinssjúklinga með útbreiddan sjúkdóm. Saunders var menntuð sem hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi og læknir sem gaf henni þverfaglega sýn á vandamál skjólstæðinga sinna. Saunders greindi það sem kallað hefur verið „alverkur“ hjá sjúklingum með útbreiddan sjúkdóm en þar tók hún á líkamlega, sálfélagslega og andlega þjáningu sjúklinga sinna. Hún boðaði að stöðugur verkur þarfnaðist stöðugrar meðferðar, beitti sér fyrir því að meðhöndla verki fyrirfram og nota mælikvarða á verki til að meta styrkleika þeirra.

Aðrar mikilvægar breytingar urðu á þessum árum þegar frumkvöðlar eins og Cicely Saunders og Virginia Henderson fræðimaður á sviði hjúkrunar fóru að nota hugtakið heildræn umönnun (e. total care), sem fjallaði um mikilvægi þess að „hlusta“ á sjúklinginn og veita honum einstaklingshæfða umönnun.

Cicely Saunders stofnaði St. Christophers Hospice í London árið 1967. Það var fyrsta nútíma líknarstofnunin í heiminum sem byggð var á þeim fræðilegu viðmiðum að rannsóknir og kennsla leiddu af sér aukna þekkingu og faglegri vinnubrögð sem endurspegluðust í þverfaglegri umönnun og verkjastillingu langveikra. Undirstaða að stofnun St. Christophers Hospice var gjöf frá ungum krabbameinsveikum Pólverja sem kynntist Saunders árið 1948 þegar hún var að læra félagsráðgjöf. Á þeim mánuðum sem andlát hans tók kynntust þau vel. Í gegnum samtal þeirra mótaðist hugmynd að stað sem hefði að leiðarljósi þverfagleg gildi sem tækju á líkamlegri, sál-félagslegri og trúarlegri þörf. Pólverjinn David Tasma gaf Saunders 500 pund til að stofna slíkan stað og sagði; „ég mun verða gluggi á heimili þínu.“ Nítján árum síðar var St. Christophers Hospice byggt í kringum glugga sem báru orð Tasma. Saunders opnaði jafnframt dagdeild og göngudeild þar sem sjúklingar gátu komið, hvílst og fengið ráðleggingar varðandi verkjastillingu. Á þeim átján árum sem Saunders var í forsvari fyrir St. Christophers Hospice vann hún ötullega að rannsóknum og nýtti niðurstöður þeirra. Hún beitti sér jafnframt fyrir að líknarmeðferð öðlaðist viðurkenningu, þekkingu og virðingu sem fræðigrein. Saunders lést á St. Christophers Hospice árið 2005..

Fjölmargar rannsóknir sem gerðar voru á árunum 1950 til 1970 og beindust að viðhorfi og líðan deyjandi sjúklinga urðu til þess að þróa enn frekar hugmyndafræði líknarmeðferðar og stefnubreytingar urðu sýnilegar. Eigindlegar rannsóknaraðferðir höfðu þar mikil áhrif. Fræg var rannsókn Glaser og Strauss sem framkvæmd var á árunum 1965, 1968 og 1971. Á þessum tíma var það viðhorf ríkjandi að sjúklingar sem voru deyjandi ættu hvorki að hafa né fá um það vitneskju. Umönnun sjúklinganna fólst meðal annars í því að vernda þá gagnvart þessari vitneskju. Rannsóknin leiddi hins vegar í ljós að þetta viðhorf jók á einmanaleika og einangrun sjúklinganna. Rannsóknin er talin hafa breytt viðhorfi til deyjandi sjúklinga og sýna aðrar þarfir en áður voru ljósar. Geðlæknirinn Elisabeth Kubler-Ross gerði einnig á þessum árum frægar eigindlegar rannsóknir á þörfum deyjandi fólks. Bók Kubler-Ross „On Death and Dying“ þótti tímamótaverk og hugmyndafræði hennar var notuð sem kennsluefni til fjölda ára.

Í New York var fyrsta líknarráðgjafateymið stofnað árið 1974 og þeirri hugmyndafræði komið á framfæri að á sjúkrahúsum ætti að fara fram bæði læknandi og líknandi meðferð. Sjúkrahúsin ættu að hafa yfir að ráða sérhæfðu teymi sem aðstoðaði heilbrigðisstarfsfólk við að gera líknarmeðferð að samofnum hluta bráðaþjónustu. Fyrsta kennslu- og rannsóknarmiðaða hospicið var jafnframt stofnað í Connecticut að fyrirmynd St. Christophers Hospice. Svíþjóð var fyrst Norðurlanda til að opna líknardeild árið 1977 en í Evrópu átti aðal þróunin sér stað eftir 1980 en þá voru stofnaðar líknardeildir og/eða heimaþjónustur á Ítalíu, Þýskalandi, Spáni og Belgíu. Ástralir hafa verið framarlega á sviði líknarmeðferðar og líknarþjónusta þróast hratt þar í landi frá árinu 1980. Í Austur Evrópu, mið Asíu og Afríku hefur þróunin verið hægari og hófs fyrir alvöru á tíunda áratugnum.

Fræðimenn í líknarmeðferð

Saunders safnaði í kringum sig fræðimönnum sem hún bauð rannsóknaraðstöðu á St. Christophers Hospice og uppfræddi um hugmyndafræði líknarmeðferðar. Með þessum fræðimönnum lagði hún grunn að nýrri fræðigrein. Þessir einstaklingar hafa síðan breitt út boðorð líknarmeðferðar með rannsóknum sínum og margvíslegri þróunarvinnu. Dr. Robert Twycross er einn þessara fræðimanna sem kom með mikilvægt innlegg í þróunarsöguna. Í upphafi áttunda áratugarins bauðst Twycross rannsóknarstaða á St. Christophers og hóf þar fyrstu tvíblindu rannsóknirnar á áhrifum morfíns, díamorfíns og metadons sem urðu til þess að skilningur og skilvirkni á verkjalyfjameðferð jókst. Rannsóknir hans urðu til að breyta þeim goðsögnum að notkun morfíns sem verkjalyfs orsakaði aðra þjáningu sem væri fíkn. Einnig að ekki væri hægt að nota morfín nema sem bráðalyf þar sem líkaminn hefði eingöngu yfir að ráða ákveðið mörgum morfínviðtökum. Twycross var í forsvari fyrir The WHO Collaborating Centre for Palliative Care, um árabil og er í dag einn helsti sérfræðingur heims á sviði verkja- og líknarmeðferðar.

Helstu heimildir:

Clark, D. (2007). From margins to centre: A review of the history of palliative care in cancer. Lancet Oncology, 8(5), 430-438.

Clemens, K. E., Jaspers, B. og Klaschik, E. ( 2009). The history of hospice. Í D. Walsh (Ritstj.), Palliative medicine (bls. 18-23). Philadelphia: Saunders Elsevier.

Doyle, D. (2003). The world of palliative care: One man´s view. Journal of Palliative Care, 19(3) 149-158.

Gracia, D. (2002). Palliative care and historical background. Í H. ten Have og D. Clark (Ritstj.), The Ethics of palliative care. European perspective (bls. 18-33). Philadelphia: Open University Press.

Henderson, V. (2006). The concept of nursing. Journal of Advanced Nursing 53(1), 21–34.

Kristín Björnsdóttir. (2005). Líkami og sál. Hugmyndir, þekking og aðferðir í hjúkrun. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Kubler-Ross, E. (1969). On Death and Dying. New York: Macmillan Publishing.

Saunders, C. (2006). Selected writings 1958-2004. New York: Oxford University Press.

Stjernswärd, J. og Gómez-Batiste, X. (2009). Palliative medicine. The global perspective: Closing the know-do gap. Í D. Walsh (Ritstj.), Palliative medicine (bls. 2-7 ). Philadelphia: Saunders Elsevier.


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica