Sólblóm

Dagdeildarþjónusta og endurhæfing

Framboð dagdeildarþjónustu og endurhæfingar er að aukast enda sýna rannsóknaniðurstöður ótvírætt fram á mikilvægi slíkrar þjónustu strax frá upphafi greiningar.

ATH ekki er öll dagdeildarþjónusta og endurhæfing án endurgjalds

Dagdeild Líknardeildar í Kópavogi

Dagdeildin var opnuð í september 2007 og er ætluð sjúklingum með ólæknandi langvinnan sjúkdóm þar sem vægi líknarmeðferðar er hátt. Sjúklingar dvelja heima og fá þjónustu heima, oftast hjá sérhæfðri heimaþjónustu: Heimahlynningu LSH eða Karitas hjúkrunar- og ráðgjafarþjónustu.

Deildinni var komið á fót með sameiginlegu átaki LSH og Oddfellow reglunnar en reglan lagði til fé til uppbyggingar deildarinnar. Deildin er í næsta húsi við líknardeildina í Kópavogi.

Á deildinni starfar þverfaglegt teymi hjúkrunarfræðings, sjúkraliða, sjúkraþjálfara og listmeðferðarfræðings. Teymið vinnur í samstarfi við lækna líknardeildar, félagsráðgjafa, prest og sálfræðing. Hjúkrunarfræðingur heldur utan um daglega starfsemi deildarinnar.

Dagdeildin er hugsuð sem stuðningur við þá skjólstæðinga sem eru með ólæknandi sjúkdóm og dvelja heima. Á dagdeildinni er lögð áhersla á forvarnarstarf, meðferð og eftirlit einkenna ásamt endurhæfingu til að viðhalda sjálfsbjargargetu og stuðla að sem mestum lífsgæðum. Mikil samvinna er við heimaþjónustur og líknardeild.

Dagdeildin er opin 2 virka daga (þriðjudag – fimmtudag) frá kl. 9-15:30. Í boði er dvöl 1-2 dag í viku, í 12 vikur í senn. Ef þörf er á lengri dvöl er það metið hjá hverjum og einum.

Sækja þarf um dvöl á dagdeild með því að senda beiðni á:

Dagdeild líknardeildar. Hús nr. 9.
Kópavogsbraut 5-7. 200 Kópavogur.


Heilsuræktin Heilsuborg

Í Heilsuborg býðst heildstæð þjónusta margra fagaðila á heilbrigðissviði sem saman vinna markvisst að því að bæta heilsu og líðan hvers einstaklings sem til okkar leitar. Þjónusta Heilsuborgar kemur fram með nýjar áherslur á sviði heilbrigðisþjónustu og líkamsræktar og er ætlað að vera viðbót við núverandi þjónustu heilbrigðiskerfisins á sviði forvarna, meðferðar og endurhæfingar.


Heimasjúkraþjálfun

Heimasjúkraþjálfun annast sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar sem vinna samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Viðkomandi sjúkraþjálfari skoðar þörf fyrir meðferð, setur upp meðferðaráætlun og sækir um þjónustu fyrir skjólstæðing til Sjúkratrygginga Íslands sem greiðir fyrir meðferð.

Sjúkraþjálfun í heimahúsum er ætluð fyrir fólk sem ekki á heimangengt til að sækja sjúkraþjálfun utan heimilis síns. Aðalmarkmið sjúkraþálfunar í heimahúsi er að gera einstaklingum kleift að dvelja sem lengst heima við.

Af einstökum þáttum sjúkraþjálfunar sem nýst geta sjúklingum heima má nefna ráðleggingar og fræðslu, verkjameðferð, sogæðameðferð, styrkjandi - og liðkandi æfingar, göngu- og jafnvægisþjálfun. Einnig útvegun hjálpartækja frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. 


Heilsustofnunin í Hveragerði

Kjarninn í hugmyndafræði Heilsustofnunar NLFÍ er að efla heilbrigði, auka vellíðan og styrkja einstaklinginn í að bera ábyrgð á eigin heilsu. Heilsustofnun, sem er í eigu Náttúrulækningafélag Íslands, var stofnuð 1955. Upphaflega byggði lækninga-, og meðferðaform stofnunarinnar mikið á hefðum náttúrulækningastefnunnar. Síðustu áratugi hefur starfsemin á ýmsan hátt sveigt sig inn á braut hefðbundinna lækninga enda meirihluti starfsliðsins með hefðbundna menntun íslenskra heilbrigðisstétta. 

Markmið

  • Að auka heilsutengd lífsgæði og vellíðan skjólstæðinga stofnunarinnar með því að auka andlega og líkamlega hreysti skjólstæðings.
  • Að tekið sé mið af markmiðum, þörfum, aðstæðum og óskum skjólstæðinga stofnunarinnar við val á meðferð.
  • Að aðstoða við að finna leiðir til að halda áfram eftir útskrift að auka eða viðhalda árangri sem náðst hefur.

Heilsustofnun NLFÍ býður upp á tvenns konar dvalarmöguleika: 

  1. Læknisfræðileg endurhæfing, meðferð er greidd að stórum hluta af íslenska ríkinu.
  2. Hvíld, slökun og heilsuefling, dvalargestir koma á eigin vegum og bera allan kostnað sjálfir.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Heilsustofnunar NLFÍ  eða í síma 483 0300. 


Kristnes í Eyjafirði

Í Kristnesi eru starfræktar endurhæfingar- og öldrunarlækningadeildir. Á deildunum fer fram endurhæfing einstaklinga með iðjuvanda af ýmsum toga eftir slys eða veikindi. Lögð er áhersla á þverfagleg vinnubrögð og að byggja upp heildræn meðferðarúrræði.

Umsókn um endurhæfingu fer í gegnum meðferðarlækni.


Ljósið

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein / blóðsjúkdóma og aðstandendur þeirra. Markmið Ljóssins er að efla lífsgæðin með því að styrkja andlegan, félagslegan og líkamlegan þrótt og draga þannig úr hliðarverkunum sem sjúkdómurinn getur haft í för með sér.

Húsnæði Ljóssins er heimilslegt þar sem hægt er að koma í kaffihúsastemningu, spjalla við náungann eða taka sér bók í hönd. Einnig er hægt að taka þátt í þeim tilboðum sem eru á dagskrá alla daga (sjá fjölbreytta stundaskrá). Þátttakendur í Ljósinu koma að eigin frumkvæði og áhuga og raða saman dagskrá sem hentar hverju sinni. Í Ljósinu er mikið unnið með lífsgæðin og lífsgleðina og lítið er talað um sjúkdóma og veikindi.

Yfirumsjón með starfinu hefur Erna Magnúsdóttir, iðjuþjálfi. Auk hennar eru fleiri fagaðilar starfandi, má þar nefna, iðjuþjálfa, jógakennara, sálfræðing, listmeðferðarfræðing, hjúkrunarfræðinga, prest með sérmenntun í fjölskyldufræðum, sjúkraþjálfa, íþróttafræðing, leiðbeinendur í hugleiðslu og handverksfólk.

Starfsemi Ljóssins er rekin alla virka daga frá kl. 8:30 til 16:00, auk þess sem sérskipulögð námskeið eru á kvöldin og laugardögum.

Aðsetur: Langholtsvegur 43, 104 R (gamla Landsbankahúsið).
Sími: 561 3770 / 695 6636.
Yfirumsjón: Erna Magnúsdóttir, iðjuþjálfi.


Landspítali

Sjúkraþjálfun Fossvogi, B1. Sími: 543 9134
• Einstaklingsmeðferð
• Meðferð við sogæðabjúg
• Þjálfun í tækjasal undir leiðsögn sjúkraþjálfara

Sjúkraþjálfun Hringbraut, 14 D. Sími: 543 9300
• Sérhæfð ráðgjöf og einstaklingsmeðferð fyrir konur sem farið hafa í aðgerð á brjósti og holhönd
• Þjálfun í tækjasal undir leiðsögn sjúkraþjálfara

Sjúkraþjálfun og sundlaug, Grensási. Sími: 543 9319
• Vatnsleikfimi
• Þjálfun í tækjasal undir leiðsögn sjúkraþjálfara


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica