Sólblóm

Líknardeild Kópavogi

Líknardeild LSH í Kópavogi er 8 rúma legudeild og er fyrsta sérhæfða líknardeildin á Íslandi. Deildin hóf starfsemi í apríl 1999. Henni var komið á fót með sameiginlegu átaki LSH og Oddfellowreglunnar á Íslandi sem ákvað í tilefni af 100 ára afmæli reglunnar að veita fé til uppbyggingar líknardeildar í Kópavogi. Í húsnæði samhliða legudeildinni er dag- og 5 daga deild sem og göngudeild sem opnaðar voru í september 2007 einnig með stuðningi Oddfellowreglunnar. 

Líknardeildin er hugsuð sem tímabundin innlögn fyrir einstaklinga með ólæknandi, langt genginn sjúkdóm og skertar lífslíkur þar sem læknanlegri meðferð hefur verið hætt og öll meðferð sem veitt er (krabbameinsmeðferð eða önnur meðferð) miðast að því að fyrirbyggja eða lina einkenni. En starfið á líknardeildinni grundvallast á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá 2002 um líknarmeðferð.

Markmið þjónustunnar er að bæta lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra sem eru með ólæknandi (langt gengna) sjúkdóma og felst meðferðin í að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu. Áhersla er á teymisvinnu starfsfólks og lögð áhersla á góð samskipti og samvinnu við sjúklinginn og fjölskyldu hans.

Helstu ástæður innlagna á líknardeild eru: 

  • Meðferð einkenna 
  • Meðferð við lok lífs 
  • Hvíld og endurhæfing fyrir þá sjúklinga sem annars dvelja heima.

Deildin er opin allan sólarhringinn alla daga ársins. Frá deildinni er gott útsýni til sjávar og góðar gönguleiðir í nágrenninu.

Heimsóknartímar á líknardeildina eru opnir en reynt er að hafa hvíldartíma milli kl. 13-15 og að ekki sé mikill gestagangur eftir kl. 21 á kvöldin. Húsinu er læst á kvöldin en hægt er að hringja dyrabjöllu. Mælst er til að fjöldi heimsóknargesta sé innan skynsamlegra marka hjá hverjum og einum.
Aðstandendur geta verið hjá sjúklingi yfir daginn og möguleiki er á að gista yfir nótt á bedda á stofu sjúklings.

Matmálstímar: Maturinn á líknardeildinni kemur frá eldhúsi LSH. Matmálstímar eru hádegismatur frá kl. 12:00 – 13:00, kvöldmatur 18:00-19:00. Þess á milli er kaffitími um kl. 15:00 og kvöldhressing um kl. 20. Tími morgunmatar er sveigjanlegur. Aðstandendum er velkomið að koma með mat fyrir sjúkling. Möguleiki er að geyma merktan mat í ísskáp í borðstofu. Hægt er að panta sérfæði s.s. grænmetisfæði.

Aðstandendur geta fengið keyptan mat úr eldhúsi LSH en panta þarf fyrir kl. 10 að morgni fyrir hádegismat og fyrir kl.16 fyrir kvöldmat. Starfsfólk í eldhúsi og ritari sér um pöntun.

Afþreying: Á hverri stofu er sjónvarp og DVD spilari. Aðgangur er að ríkisstjónvarpinu og Stöð 2. Netaðgangur er á stofum en sjúklingar þurfa að koma með sína eigin tölvu. Bókaskot er undir stiga á kapellugangi – þar er nokkuð úrval bóka. Tvö dagblöð koma á deildina. Margir sjúkingar eru með sína eigin GSM síma en á deildinni er þráðlaus sími sem hægt er að fara með milli stofa ef þörf er á. Mælst er til að aðstandendur hafi GSM síma sína stillta á hljóðlátt (silence) og tali ekki í síma á gangi og í setustofu deildarinnar. Hægt er að fara í fundarherbergi, bókarskot undir stiga eða út.  

Aðsetur: Kópavogsgerði 6 b-d. 200 Kópavogur 

Deildarstjóri: Kristín Jóhanna Þorbergsdóttir
Yfirlæknir: Valgerður Sigurðardóttir

Sími líknardeildar: 543-6602 og 543-6605

Einkunnarorð líknardeildar eru umhyggja, virðing og fagmennska.Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica