Sólblóm

Þverfagleg þjónusta

Ljósið

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.

Húsnæði Ljóssins er eins og fallegt heimili þar sem hægt er að koma í kaffihúsastemningu og spjalla við náungann.  Til að auka virkni og þrek býður Ljósið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.  Má þar nefna heilsutengd námskeið, námskeið fyrir nýgreindar konur, fræðslufundi fyrir karlmenn, jógahópa, gönguhópa, líkamsrækt, handverkshópa, nudd og fleira.( sjá dagskrá) Þátttakendur í Ljósinu koma að eigin frumkvæði og áhuga og raða saman dagskrá sem hentar hverju sinni. Í Ljósinu er mikið unnið með lífsgæðin og lífsgleðina og lítið er talað um sjúkdóma og veikindi.

Starfsemi Ljóssins er rekin alla virka daga frá kl. 8:30 til 16:00, auk þess sem sérskipulögð námskeið eru á kvöldin og laugardögum. Við erum á Langholtsvegi 43, 104 Rvk, gamla Landsbankahúsinu.

Yfirumsjón með starfinu hefur Erna Magnúsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi.

Þeir fagaðilar sem starfa með Ljósinu eru; iðjuþjálfar, sjúkraþjálfari, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, jógakennarar, nuddarar, læknar, geðlæknar, handverksfólk og fleiri.Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélagsins

Í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á fræðslu, upplýsingar, ráðgjöf og stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur.

Hjá Ráðgjafarþjónustunni starfa hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafi og sálfræðingur. Auk þess eru starfandi ellefu stuðningshópar fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Þjónustan er öllum að kostnaðarlausu, fyrir utan einstaka námskeið.

Markmið Ráðgjafarþjónustunnar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu eftir þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Hjá Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á fræðslu, viðtöl, faglega ráðgjöf, djúpslökun, ýmis námskeið og hagnýtar upplýsingar um réttindi fólks með krabbamein.

Ráðgjafarþjónustan er öllum opin og hægt er að koma án þess að gera boð á undan sér. Hægt er að hafa samband við starfsmenn Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í tölvupósti á netfangið radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040 alla virka daga.

Ráðgjafarþjónustan er á fyrstu hæð í húsi Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8. Húsnæðið er heimilislegt og þar er hægt að setjast niður og fá sér hressingu.

Ráðgjafarþjónustan er opin mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 9:00-16:00, fimmtudaga kl. 9:00-18:00 og föstudaga 9:00-14:00.


Reykleysismeðferð

Reykleysismeðferð og tóbaksvarnir á geðsviði

Sérfræðingur í hjúkrun á geðsviði Landspítala veitir ráðgjöf til reykleysis. Ráðgjöfin er opin öllum notendum þjónustu á geðsviði sem áhuga hafa á reykbindindi. Ekki er nauðsynlegt að vera í skipulagðri meðferð til að nýta sér ráðgjöfina. Notendur geta haft samband milliliðalaust við sérfræðing í síma 543 4200 eða beðið meðferðaraðila sína að hafa milligöngu um ráðgjöf.

Ráðgjöf til starfsmanna geðsviðs um tóbaksvarnir og reykleysisstuðning til skjólstæðinga

Sérfræðingur í hjúkrun veitir starfsmönnum geðsviðs ráðgjöf um tóbaksvarnir og stuðning til reykleysis skjólstæðinga geðsviðs sé eftir því leitað. Beiðnum skal komið á framfæri í síma 543 4200.

Í bæklingnum "Reykleysi er frelsi en ekki fórn" eru góðar upplýsingar fyrir þá sem eru að hugsa um að hætta að reykja og þá sem ætla að hætta að reykja.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur um árabil aðstoðað fólk við að hætta að reykja með því að standa fyrir námskeiðum, sinna einstaklingsmeðferð og fræðsluerindum í húsi Krabbameinsfélagsins og hjá fyrirtækjum og félagasamtökum. Hægt er að hafa samband í síma 540 1900 eða senda póst á netfangið reykleysi@krabb.is.

Það að hætta að reykja er eitt það besta sem hægt er að gera til að bæta heilsuna. Fagleg ráðgjöf bætir árangur til reykleysis. Það er aldrei of seint að hætta að reykja. Lífslíkur og lífsgæði aukast við að hætta óháð því á hvaða aldri einstaklingur er. Hvað lagast við að hætta að reykja (sjá meðfylgjandi töflu).Sáramiðstöð

Á göngudeild G3 á Landspítala Fossvogi er sáramiðstöð til greiningar og ráðgjafar við meðferð langvinnra sára. Sáramiðstöð Landspítala er þverfagleg miðstöð með aðkomu margra sérgreina, þar á meðal æðaskurðlækninga, húðlækninga, lýtalækninga, innkirtlalækninga, smitsjúkdómalækninga, bæklunarlækninga og hjúkrunarfræðings með sárameðferð sem sérgrein.

Grundvallaratriði sárameðferðar er að greina og meðhöndla undirliggjandi orsök sáranna og þá þætti sem tafið geta sárgræðslu.  Á sáramiðstöð LSH vinna hjúkrunarfræðingar, læknar og fótaaðgerðafræðingur. Þar fer fram greining á sárum og ráðgjöf um meðferð. Einnig er gert ráð fyrir eftirfylgni eða meðferð af hálfu sérfræðings ef talin er þörf á en gert er ráð fyrir að sárameðferðin sé síðan í höndum þeirra sem annast hafa sjúklinginn fyrir.

Starfsemi sárahjúkrunarfræðings er þríþætt; göngudeildarþjónusta á göngudeild G3 í Fossvogi, ráðgjöf á deildum spítalans og kennsla og fræðsla.

Umsjón:  Guðbjörg Pálsdóttir sárahjúkrunarfræðingur, s. 825 5084. Einnig er hægt að senda tölvupóst á saramidstod@landspitali.is eða bóka tíma með því að hringja á bráða- og göngudeild G3 í Fossvogi í síma 543 2040.  Tilvísun frá heilbrigðisstarfsmanni þarf til að bóka tíma á sáramiðstöð.


Sálfræðiþjónusta

Stór hópur sálfræðinga starfar á geðsviði og veita þeir sjúklingum spítalans og aðstandendum þeirra sálfræðiþjónustu. Sálfræðingarnir eru staðsettir á öllum fimm einingum sviðsins.

Sálfræðiþjónusta á almennum deildum sjúkrahússins hefur það að markmiði að auka lífsgæði sjúklinga og aðstandenda. Þjónustan hefur sýnt mikilvægi sitt í bættri andlegri og líkamlegri líðan sjúklinga; aðstoð við að ná betra almennu heilsufari, aukinni hæfni til að sinna eigin heilsu og meiri getu til þess að lifa með langvinnum sjúkdómum. Sálfræðiþjónustan felur m.a. í sér stuðningsviðtöl, sálfræðilega meðferð, greiningu, taugasálfræðilega greiningu og endurhæfingu og fræðslu af ýmsu tagi. Um er að ræða einstaklings- og hópmeðferð, para og fjölskylduviðtöl. Beiðni um sálfræðiþjónustu fer í gegnum viðkomandi lækni eða hjúkrunarfræðing.

Samráðskvaðningar sálfræðinga eiga að berast rafrænt (beiðni um ráðgjöf) til samráðskvaðningateymis í feril- og bráðaþjónustu geðsviðs á Hringbraut.

Tilvísunum um sálfræðiþjónustu má koma til sálfræðinga á mismunandi starfsstöðum þeirra og rafrænt í Sögukerfinu.

Hlutverk sálfræðinga á geðsviði


Sálgæsla presta og djákna

Fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk spítalans, án tillits til lífsskoðana eða trúarafstöðu, sem glímir við sárar tilfinningar og erfiðar tilvistarspurningar tengdar veikindum og alvarlegum áföllum.Sjúkrahúsprestar/djákni skipta með sér verkum og ganga vaktir þannig að hægt er að ná í sjúkrahúsprest/djákna á hvaða tíma sólarhringsins sem er allt árið um kring.


Ef þarf að hafa samband við prest/djákna ber að snúa sér til hjúkrunarfræðings á deildinni sem hefur milligöngu um að koma á sambandi eða hringja í símaþjónustu Landspítala s. 543 1000.


Við starfseiningu sálgæslu presta og djákna á Landspítala eru eftirfarandi starfsmenn:

 • Bragi Skúlason prestur
 • Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir prestur
 • Gunnar R. Matthíasson prestur
 • Ingólfur Hartvigsson
 • (Í fjarveru Vigfúsar Bjarna Albertssonar 2018-2019)
 • Rósa Kristjánsdóttir djákni
 • Eysteinn Orri Gunnarsson prestur
 • Vigfús Bjarni Albertsson prestur
 • (Í leyfi 2018-2019)
 • Sylvía Magnúsdóttir prestur
 • Sveinbjörg Katrín Pálsdóttir
 • Díana Ósk Óskarsdóttir presturVar efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica