Sólblóm

Eigendur Karitas vefsíðu um krabbamein, óska ykkur öllum gleðilegra jóla með þakklæti fyrir árið sem er að líða. Megi hátíð ljóss og friðar færa ykkur birtu og yl.

Til er gömul frásaga af því er fyrst skyldi halda jól. Þá sendi Guð fjóra engla til jarðarinnar til að undirbúa jólin. Það voru englar trúarinnar, vonarinnar, kærleikans og gleðinnar. Þeir áttu að leita að tré sem verið gæti tákn fyrir boðskap jólanna. Þegar englarnir komu til jarðarinnar komu þeir saman til að ráðgast um hvernig tréð ætti að vera.

Engill trúarinnar sagði: Eg vil tré sem ber hið heilaga tákn krossins á greinum sínum. Engill vonarinnar sagði: Tréð, sem ég ætla að velja, má aldrei fölna né visna. Það verður að vera grænt jafnt sumar sem vetur. Það á að vera tákn þess lífs sem dauðinn fær ekki sigrað. Þá mælti engill kærleikans: Tréð, sem ég mun velja, á að vera gróskumikið og skjólgott. Það á að breiða út greinar sínar í kærleika svo fuglar skógarins geti leitað þar skjóls. Engill gleðinnar sagði: Tréð, sem þið veljið, mun ég blessa svo það verði til gleði bæði í koti og höll fyrir fátæka og ríka, sjúka og heilbrigða, unga og gamla.

Að lokum völdu þeir grenitréð. Það ber tákn krossins á greinum sínum, það er sígrænt sumar og vetur og það veitir smáfuglunum skjól. Nú vildu englarnir einnig gefa gjafir. Engill trúarinnar skreytti greinar trésins með ljósum sem lýstu eins og stjarnan yfir Betlehem hina fyrstu jólanótt. Engill vonarinnar setti stóra og fallega stjörnu efst á tréð. Engill kærleikans lagði margar góðar gjafir við rætur þess. Að lokum blessaði engill gleðinnar tréð og gjafirnar og gaf því mátt til að gleðja hjörtu mannanna með því að flytja þeim fagnaðarboðskapinn um jólabarnið í jötunni, jólabarnið sem varð herra lífsins, friðarhöfðingi, konungur kærleikans og gleðinnar. Nú voru jólin undirbúin og englarnir flugu aftur heim til himna. En ár eftir ár koma þeir aftur. Og líka í ár....

 

Hugheilar jólakveðjur,

Ásdís, Berglind, Bergþóra og Valgerður


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica