Sólblóm

Fjölskylduviðtöl, einstaklingsviðtöl og viðtöl við börn

Starfsfólk sérhæfðrar líknarþjónustu hafa flestir áralanga og sérhæfða reynslu á sviði krabbameinshjúkrunar, fjölskylduhjúkrunar og ráðgjafar meðal annars vegna barna.


Starfsfólk sérhæfðrar líknarþjónustu hafa flestir áralanga og sérhæfða reynslu á sviði krabbameinshjúkrunar, fjölskylduhjúkrunar og ráðgjafar meðal annars vegna barna.

Fjölskylduviðtöl er ein þeirra leiða sem talin eru auka á árangursrík samskipti milli sjúklinga, aðstandenda og fagfólks. Þau geta stuðlað að trausti sem auðveldar áframhaldandi vinnu með fjölskyldunni í gegnum veikindaferlið.

Fjölskylduviðtöl bæta þekkingu allra þeirra sem kom að umönnun sjúklings og fjölskyldu hans. Þau geta dregið úr kvíða og vanlíðan með þvi að setja fram markmið og raunhæfa áætlun sem fjölskyldan getur fylgt.

Gott að hafa í huga:

  • Fjölskylduviðtöl eiga að vera eðlilegur hluti af meðferð sjúklinga.
  • Fjölskylduviðtöl gefa öllum hlutaðeigandi tækifæri til að hittast og kynnast þörfum sjúklinga og aðstandenda, ræða greiningu, ástand, gang sjúkdóms, meðferðarmöguleika, markmið og meðferðaráætlun
  • Fjölskylduviðtöl eiga að vera öruggur staður þar sem hægt er að ræða saman á heiðarlegan hátt og spyrja spurninga.
  • Fjölskylduviðtöl eru gagnkvæmur hagur allra hlutaðeigandi þar sem fjölskyldan býr yfir mikilvægum upplýsingum sem gagnlegt er fyrir fagfólk að vita.
  • Fjölskylduviðtöl eiga ekki að bíða þar til vandamál verða illleysanleg.

 

Til fróðleiks:

Þjóðir heims eru í vaxandi mæli að snúa sér til fjölskyldunnar sem umönnunaraðila. Ástæður eru meðal annars gífurlegur kostaður heilbrigðiskerfisins, samfélagslegar breytingar og pólitísk stefnumótun þar sem litið er á fólk sem neytendur heilbrigðisþjónustunnar og þar með samábyrgt. Heilbrigðisyfirvöld leggja áherslu á dag- og göngudeildarþjónustu ásamt heimaumönnun sem veldur auknu álagi og þrýstingi á fjölskylduna vegna umönnunar og eftirlits. Fjölskyldan er orðin einn af meðferðaraðilum sjúklingsins

Langvinnir og ólæknandi sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á alla fjölskyldumeðlimi sem tengjast sjúklingnum. Hlutverk innan fjölskyldunnar breytast með nýjum hlutverkum umönnunaraðila, auk hlutverka sem áður voru á hendi sjúklingsins. Einnig getur innrás verið óhjákvæmileg í friðhelgi heimilislífsins þegar þörf er á heimaþjónustu, heimilið fyllist af hjálpartækjum og tekur jafnvel á sig mynd sjúkrahúss. Þrátt fyrir allar þessar breyttu aðstæður leitast fjölskyldan við að finna stöðugleika og lifa venjubundnu lífi.

Mikilvægt er að tekið sé tillit til þess að fjölskyldan þarfnast einnig umönnunar í formi fræðslu og sálfélagslegs stuðnings sérhæfðra fagaðila svo hún geti tekist á við nýtt hlutverk og haldið áfram ómetanlegu starfi innan heimilisins.

Íslensk rannsókn frá árinu 2006 á þörfum fjölskyldu krabbameinssjúklinga sem fengu sérhæfða þjónustu sýndi að það sem fjölskyldunni fannst mikilvægast var að:

  • Sjúklingnum væri vel sinnt.
  • Heiðarleg svör fengjust við spurningum og upplýsingar væru gefnar á skiljanlegan hátt. Fjölskyldunni væru veittar upplýsingar varðandi umönnun heima og hún þekkti nöfn fagfólks sem sinnti sjúklingi.
  • Fyrirfram vitneskju um væntanleg einkenni, viðurkenning frá heilbrigðisstarfsfólki og að borin væri umhyggja fyrir heilsu umönnunaraðila

 

 

Helstu heimildir:

Deeken, F. J., Taylor, L. K., Mangan, P., Yabroff, R. K. og Ingham M. J. (2003). Care for the caregivers: A review of self-report instruments developed to measure the burden, needs, and quality of life of caregivers. Journal of Pain and Symtom Management, 26, 922-953.

Friðriksdottir, N., Sigurðardottir, V. og Gunnarsdóttir, S. (2006). Important needs of families in acute and palliative care settings assessed with the family inventory of needs. Palliative Medicine, 20, 425-432.

Landspítali (2009). Líknarmeðferð–leiðbeiningar um ákvörðun meðferðar og meðferðarúrræði hjá sjúklingum með lífshættulega og/eða versnandi langvinna sjúkdóma. Klínískar leiðbeiningar. 1. útgáfa desember 2009.

Panke, T. J. og Ferrell, R. B. (2005). Emotional problems in the family. Í D. Doyle, G. Hanks, N. Cherny og K. Calman (Ritstj.), Oxford textbook of palliative medicine (bls: 985-992). New York: Oxford University Press. 

Sigríður Þorgeirsdóttir og Kristín Björnsdóttir. (2004). Velferðarþjónusta á tímamótum. Í Irma Erlingsdóttir (Ritstj.), Fléttur II. Kynjafræði-Kortlagningar (bls. 273-291). Reykjavík: Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum.

Wright, L. M., og Leahey, M. (2000). Nurses and Families. A Guide to Family Assessment and Intervention. Philadelphia: F.A. Davis Company.

 

 


Var efnið hjálplegt? Nei

Þetta vefsvæði byggir á Eplica